Skip to content

Góður og hæfilegur texti styrkir góða ímynd og traust.

Á að kaupa textaþjónustu?

Traust og ímynd fyrirtækja, stofnana, félaga og einstaklinga er mikilvæg og dýrmæt.

Góður texti; hæfilegur, vandaður, upplýsandi, réttur og skýr, er góð kynning. Og hefur mikil áhrif á ímynd og traust fyrirtækis og um leið á vörur og þjónustu sem það selur. Með góðum texta er lesanda sýnd virðing og hann skynjar gæði.

Með keyptri sérhæfðri textaþjónustu er líklegra að meiri textagæði og jákvæð upplifun og áhugi lesanda náist.

Allir eru góðir í einhverju en fæstir eru góðir í öllu. Ýmsir eru góðir sögumenn, en geta ekki sett söguna eða sölulýsinguna niður á blað.
Og þótt fólk geti skrifað verða vönduð textaskrif oft afgangs, svo margt annað áríðandi kallar á athygli og tíma.
Í þessum tilvikum er góður kostur að geta fengið sérhæfða textaþjónustu til að tryggja sem best hæfilegan og góðan texta og styðja við góða ímynd og traust.

Textategundir, reynsla og geta

Textar eru mikilvægur og stór þáttur í umhverfi okkar.
Þeir birtast okkur ritaðir og munnlegir, í sjónvarpi og útvarpi, á netsíðum og pappír.
Iðulega til að flytja okkur fréttir og auglýsingar til að selja okkur vöru og þjónustu.

Hér eru nokkur dæmi um textategundir og viðfangsefni í textaþjónustu minni, með skrift, yfirlestri og lagfæringum.
Þessi dæmi tilgreina í leiðinni textareynslu og textagetu mína, ég hef reynslu í þeim öllum

  • Heimasíðutextar fyrirtækja, stofnana og félaga.
    Dæmi: Samræming og bæting texta allra námslýsinga stórs fræðslufyrirtækis.
    ,,Þetta var 10 ára uppsöfnuð þörf – og við fundum rétta manninn í verkið.“
    Vann lagfæringar beint á heimasíðunni, með aðgangs- og lykilorði, sem sparaði vinnu beggja aðila.
  • Auglýsingar – vandaður, grípandi og hvetjandi texti. Og kynningar- og markaðssetningarefni.
  • Vörulýsingar, leiðbeiningar og skilmálar vegna kaupa vöru eða þjónustu.
  • Sölulýsingar fasteigna.
  • Stefnumótunartextar.
  • Samningar. Um þjónustu, leigu og sölu eigna, árangursstjórnun stofnana og útvistun reksturs leik- og grunnskóla.
  • Skýrslur, samantektir og greinargerðir.
  • Bréf. Mikilvæg og krefjandi, til banka, lögmanna og fyrirtækja.
  • Blaðagreinar. Gengistryggð og verðtryggð lán og fleira sem ég vildi vekja athygli á.
  • Fundargerðir. Vikulegar fundargerðir stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna í eitt ár og margt fleira. Á flestum vinnustöðum og í fjölbreyttum félagsstörfum. Ég hef líka verið formaður og gjaldkeri félaga.
  • Lög félaga. Gerð skýrari, virkari og aðgengilegri, með endurröðun lagagreina, eyðingu úreltra ákvæða og skýringu annarra. Áhugavert væri að vinna að betri læsileika laga Íslands.
  • Lokaritgerðir háskólanemenda. Yfirferð og leiðréttingar, spurningar til höfunda og textalagfæringar.
  • Starfsumsóknir og ferilskrár. Eigin og annarra. 
 

Önnur helsta textavinna og textareynsla

  • Lögregluskýrslur. Vettvangsskýrslur og yfirheyrsluskýrslur. Oft flókin og krefjandi textagerð, undir pressu.
  • Öflun og úrvinnsla upplýsinga, í texta og töflur. Stundum með teymisvinnu og hugarflugi.
  • Kærur vegna rökstudds gruns um tryggingasvik, með bréfum til rannsóknarlögreglu.
  • Verklagsreglur – knappir textar í flæðirit í gæðastjórnunarvinnu.
  • Ritstýring greinargerðar árlegrar fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðarbæjar. Settur saman texti frá ýmsum starfsmönnum, lesinn yfir, samræmdur og prófarkalesinn. Öflugur skóli og reynsla, með góðu samstarfsfólki. 
  • Rekstrar- og starfsáætlanir.
  • Skýrsla ráðherraskipaðrar nefndar um verðtryggingu. Skrifaði breytingatillögur sem höfðu áhrif.
  • Umsagnir um ýmis mál á Alþingi. Skrifaði einn og með öðrum og mætti nokkrum sinnum fyrir viðkomandi þingnefndir til að gera grein fyrir umsögnunum.
  • Prófarkalestur texta vegna fjárlaga. Og hafði í stjórnarráðinu áhrif til einföldunar og skýrara orðalags texta í frumvarpi til fjárlaga. Líka þátttaka í gerð minnisblaða, skrifaði bréf til stofnana og fleira.


Nánar um textareynslu og textagetu

Stundum er sagt: ,,Það skiptir ekki máli hvað þú hefur lært, heldur hvað þú getur“.
Ég er ekki með háskólagráðu í íslensku en hef mikla reynslu og getu í textagerð og textalagfæringum, eftir mikinn lestur, breiða menntun, víðtæka starfs- og félagsreynslu og fjölbreytta textavinnu í áratugi.

Sem krakki var ég farinn að lesa þunga og erfiða bókatexta og hef lesið mikið síðan. Og í leiðinni fest mér í minni hvernig orð eru stafsett og hvernig rithöfundar og aðrir orða það sem þeir vilja koma á framfæri. Móðir mín lagði ríka áherslu á að við systkinin skrifuðum rétt mál og lagði okkur til góðar leikmanns-grunnreglur í réttritun.

Frá því snemma á starfsferli mínum hef ég þróað styrkleika í eigin textagerð. Og svo með tímanum líka oft tekið að mér að bæta texta annarra á ýmsum vettvangi. Í mínu daglega umhverfi sé ég í texta og heyri oft ýmislegt sem betur má fara.

Styrkleiki minn í textavinnu þróaðist fyrir alvöru á lögregluárum mínum. Í lögreglunni í Reykjavík gat ég fljótt gert grein fyrir flóknum málavöxtum í skýrslugerð. Nákvæmni og geta í skýrslugerð fleytti mér ungum inn í rannsóknarlögreglu ríkisins – RLR. Þar fékk ég mörg mál sem reyndu á nákvæmni í rannsóknarvinnu og krefjandi skýrslugerð. Ég fékk mikla reynslu í að fá fram skýrar atvikalýsingar í yfirheyrslum, til að koma í læsilegan og skýran skýrslutexta, helst í tímaröð.

Ég hef svo í áratugi byggt ofan á þennan grunn með áframhaldandi námi, lestri, ræðumennsku og mikilli vinnu í textamálum, í fjölbreyttum störfum, verkefnum og félagsstörfum.
Ég hef góða máltilfinningu og góð tök á íslensku máli. Og getu, bæði til að skrifa hæfilegan og vandaðan texta og til að gera fyrirliggjandi texta betri.

Þessa reynslu og getu vil ég nýta fyrir þá sem hafa þörf fyrir betri texta og býð lipra og hagkvæma textaþjónustu.

Fyrirvari um þjónustu og ábyrgð

Markmið textaþjónustunnar er að gera betri þann texta sem ég yfirfer og vinn í.
Ég er ekki háskólagenginn í íslensku og ekki heldur sérfræðingur í öllum mögulegum málfræðireglum.
Þess í stað byggi ég textagetu mína á breiðri menntun og starfsreynslu, góðri reynslu og tilfinningu fyrir góðu íslensku máli og hvernig ég get gert texta réttari og betri.
Ég lofa aldrei 100% villuleysi, en lofa alltaf betri texta; skipulegum, læsilegum, lifandi og hvetjandi texta þar sem við á.
Sem einstaklingur í textaþjónustu undanskil ég mig skaðabótaábyrgð ef þjónusta mín kann að valda viðskiptavini eða öðrum tjóni.
Ég er að sjálfsögðu bundinn trúnaði um viðkvæmt efni og upplýsingar frá viðskiptavinum, er vanur trúnaði frá fyrri störfum.