Skip to content

Í textagerð er mikilvægast að texti nái að koma á framfæri hugsuninni og boðskapnum á bak við hann

Helstu þættir í textaþjónustu minni

Útilokað er að telja upp alla mögulega verkþætti í textaþjónustunni. Hér eru nokkrir mikilvægir þættir.

Skrift texta frá grunni
Skrifa texta frá grunni, út frá efnispunktum, hugmyndum, þörfum, tilgangi texta og hver lesandi er.
Taka við innlesnum texta í síma eða ritvinnsluforriti sem ég get hlustað á og unnið úr.
Eða símtal, þar sem ég sit við tölvuna, hlusta á orð viðskiptavinar, tek niður efnispunkta og vinn úr í heildstæðan texta.

Lestur og vinna í fyrirliggjandi texta eða textadrögum
Lesa og yfirfara texta eða textadrög. Spyrja spurninga ef þarf, lagfæra eða endurskrifa og klára textann, þannig að textinn og framsetning hans hæfi tilgangi og lesanda. Grunnatriði er að hugsun og boðskapur skili sér í gegnum textann.

Yfirlestur og leiðréttingar fullskrifaðs texta – prófarkalestur 
Lesa yfir fyrirliggjandi texta, svo sem á heimasíðum. Laga málfar og leiðrétta villur í stafsetningu, beygingum, tíðum og öðru.
Venjulega er fljótlegt að laga helstu villur í texta og bæta hann mikið.

Bæting á flæði og læsileika texta – handritslestur
Bæta flæði í texta. Meðal annars með tímabundnum eða varanlegum millifyrirsögnum. Færa til og endurraða efnisþáttum, setningum og orðum, helst í tímaröð. Minnka svo endurtekningar og stytta texta, en bæta í þar sem mögulega þarf. Allt til að efnið verði sem skipulegast og skýrast.
Brjóta upp og einfalda langar og flóknar setningar og orð, sérstaklega í texta sem á að flytja munnlega, talmáli.
Allt breytingar sem auðvelda lestur, sýna lesanda virðingu og auka líkur á að texti sé lesinn til enda.

Skýring texta
Auka upplýsingagildi og skýrleika texta, miðað við tilgang textans og hver lesandi hans er.
Markmiðið er að texti sé skiljanlegur og fræðandi, svari því sem honum er ætlað og valdi ekki misskilningi.

Stytting texta
Stytta texta eins og mögulegt er, án þess að skaða boðskap og gæði hans. Sífellt algengari krafa lesenda er að texti sé stuttur og skýr, annars lesi þeir hann ekki.
Ekki er öllum gefið og er seinlegra að koma hugsun og meiningu á framfæri í stuttum texta. Enda sagði rithöfundurinn á sínum tíma eitthvað á þessa leið: ,,Fyrirgefðu að ég hafði ekki tíma til að skrifa þér styttra bréf.” 
Einn möguleiki er að gera útdrátt með helstu atriðum textans, mögulega í upptalningarstíl, til að upplýsa og ná athygli. 

Samræming, málfar, stíll og framsetning 
Samræma efnisþætti, fallbeygingu nafnorða, tíð sagnorða og fleira, til dæmis í upptalningum. Einfalda texta ef mögulegt er.
Reyna að samræma og hafa svipað málfar, stíl og framsetningu alls textans, til að fá heildstæða og samræmda heildarmynd.

Hvatning í texta auglýsinga
Tryggja sem besta hvatningu, til dæmis í kynningarefni og auglýsingum. Ekki er nóg að auglýsing sé á réttri og góðri íslensku, ef hvatningu vantar. Tilgangur texta auglýsingar er að upplýsa, fá viðbrögð lesanda og hvetja hann til að kaupa vöru eða þjónustu, eða sækja um auglýst starf.   

Ritstjórn
Ritstjórnarlegar spurningar og ábendingar, svo sem um uppbyggingu og röð efnis, innra samræmi, skýrleika og annað mikilvægt til að skapa gott ritverk. Bein og óbein hvatning til höfundar, til að halda áfram í verkinu, bæta það og halda áfram skrifum. 

Heimasíðuúttekt
Skoða heimasíðu heildstætt. Yfirfara hvort efni hennar virðist vera; uppfært, hæfilegt, gagnlegt og fullnægjandi fyrir lesanda og athuga hvort tenglar og annað virkar.

Hver er lesandi og hvernig á að nota texta?

Mikilvægt er að spyrja: Fyrir hvern er texti skrifaður, hver er væntanlegur lesandi? 
Texti, form hans, stíll og málfar þarf allt að miðast við lesanda – og tilgang textans. 
Er lesandi ókunnugur efninu, vel upplýstur leikmaður eða sérfræðingur?
Er textinn kynning eða auglýsing vöru eða þjónustu fyrir skilgreindan markhóp? 

Á skriflegur texti að vera léttur eða alvarlegur, stuttur eða ítarlegur, formlegur eða óformlegur, ætlaður á samfélagsmiðil, heimasíðu, í fræðirit eða eitthvað annað?

Á að flytja textann munnlega, til dæmis sem ræðu eða lesna frétt í fjölmiðli?
Í fréttatímum útvarps og sjónvarps eru stundum of langar og flóknar setningar. Fréttin verður erfiðari í flutningi og óskýrari fyrir hlustanda. Texti sem lesinn er upp þarf að vera læsilegt talmál, án svokallaðra tungubrjóta.

Efnis-samskiptaaðferðir

Algengast er að fá textaefni til yfirferðar og vinnslu sent með tölvupósti.
Ef textinn er á heimasíðu getur verið fljótlegra og ódýrara að fá notandanafn og lykilorð til að yfirfara og lagfæra textann inni á heimasíðunni.